Sigrún Jónsdóttir þroskaþjálfi og ADHD- og einhverfumarkþjálfi
„Þjónustuþegar VIRK eru um helmingur þeirra sem til mín leita,“ segir Sigrún Jónsdóttir þroskaþjálfi og ADHD- og einhverfumarkþjálfi. Við hittum hana fyrir í húsnæði fyrirtækisins Míró sem hún rekur í St. Jósepsspítalanum í Hafnarfirði. Ætlunin er að fræðast um ADHD og leiðir til þess að gera vegferð þeirra betri sem fá slíka greiningu.
En hvað er ADHD?
„ADHD er röskun í framheila en þar mótast sjálfstjórnin meðal annars. Um er að ræða erfðafræðilegan eiginleika hjá um áttatíu prósent þeirra sem greinast með ADHD. Talið er að nægilegt dópamín sé í heila fólks með ADHD en það dreifist ekki nógu heppilega, ef svo má segja. Talað er um að ADHD, einhverfuróf og lesblinda séu af tauga- og lífeðlisfræðilegri röskun. Tourette er til dæmis ein af þekktari birtingarmyndum ADHD – sem og kækir, svefnerfiðleikar, þunglyndi, kvíði og þráhyggjuröskun svo það helsta sé nefnt sem hangir á þessu „fylgiraskanatré“,“ segir Sigrún.
Hvernig er ADHD greint?
„ADHD samanstendur af þremur þáttum – athyglisbresti, hvatvísi og ofvirkni. Þessir þættir eru skoðaðir saman. Einstaklingur sem leitar eftir greiningu getur fengið þá niðurstöðu að hann sé bara með athyglisbrest eða þá blöndu af athyglisbresti, hvatvísi og ofvirkni saman. Einstaklingur sem hefur grun um að hann sé með ADHD finnur ýmist fyrir því að missa athygli eða þá að ná ekki að einbeita sér af því hann veiti umhverfinu of mikla athygli. Mikið er að gera í kollinum á viðkomandi og hugsanirnar fljúga út um allt. Slíkt getur framkallað vanvirkni sem er sterk birtingarmynd af ADHD og getur valdið kvíða og frestunartilhneigingu. Afleiðingar ADHD geta orðið þunglyndi og kvíði. Það skal tekið fram að fólk með ADHD er með fulla greind og oft skapandi manneskjur.“
Er ADHD algengt á Íslandi?
„Hér á landi eru allavega margir greindir. Ýmislegt bendir til að ADHD sé algengara hér en víða annars staðar. ADHD gefur marga jákvæða eiginleika. Fólk með slíka greiningu er oft duglegt og kraftmikið til vinnu og fylgið sér. Ætla má að slíkir eiginleikar hafi nýst vel fyrr á öldum í einsleitari samfélögum en við búum nú í. Vissulega þola þeir sem eru með ADHD áreiti ekki síður en aðrir – en þeir þola það kannski ekki lengi. Flókið skólakerfi og fjölskyldumunstur reyna á þá sem eru með ADHD svo dæmi séu nefnd.“
Fólk með ADHD oft áhugadrifið og skapandi
Er einhver sérstök vinna sem hentar fólki með ADHD betur en önnur?
„Fólk með ADHD gerir almennt vel það sem það vill gera og hefur áhuga á. Einstaklingar með ADHD eru áhugadrifnir og oft skapandi. Erfiðleikarnir felast hins vegar stundum í að koma hlutunum frá sér. Vitað er að margir listamenn með ADHD, svo sem rithöfundar, leikarar og tónlistarmenn, hafa náð frábærum árangri í sínum greinum. Einnig má nefna til sögunnar framkvæmdastjóra í stórum fyrirtækjum og frumkvöðla. Þeir koma með nýjar hugmyndir og ná stundum að fanga þær og koma þeim áfram.“
Hvaða erfiðleikar eru það sem fólk með ADHD glímir helst við?
„Úthaldsleysi ef fólk hefur ekki lengur áhuga á viðfangsefnunum – jafnvel þótt seigla sé til staðar. En af því að hugsanirnar vilja leita víða er leiðin oft lengri og krókóttari en hjá öðrum. Hvatvísin veldur líka erfiðleikum, fólk nær ekki að hæga á sér og stoppa í tíma. Hugsanirnar eru hraðar og því þurfa þeir sem eru með ADHD ekki síst að læra að hægja á sér.
ADHD veldur gjarnan erfiðleikum í námi, ekki síst þar sem lítill áhugi er fyrir hendi. Þá gefst fólk frekar upp. Vegna ADHD á viðkomandi erfitt með að fylgja eftir markmiðum til langs tíma. Einnig vex því fólki oft í augum að byrja á verkefni. Dr. Russell Barkley geðlæknir hefur látið svo um mælt að yfirleitt vanti ekkert upp á greind þeirra sem eru með ADHD en að sama skapi sé erfitt að mæla hana.“
Hefur manneskja með ADHD samkennd með öðru fólki?
„Einstaklingur með ADHD er stundum dálítið fjarlægur. Eitt af því sem vinna þarf með hjá fólki með ADHD er að auka samkennd í eigin garð. Það vantar upp á að viðkomandi geti varðað leiðina fyrir sjálfan sig. Talað er um að fólk með ADHD geti þróað með sér meiri meðvirkni en aðrir, ekki síst af því hugurinn er alltaf upptekinn við að skanna umhverfið. Vandamálið er því í raun ekki skortur á athygli heldur of mikil athygli. Þegar hugaraflið beinist að því að halda öllu í lagi er sú hætta fyrir hendi að viðkomandi gleymi sjálfum sér.“
Fræðsla, markþjálfun og færniþjálfun
Hvernig vegnar fólki með ADHD innan fjölskyldu?
„Á því er allur gangur og mikið hefur að segja hvernig umhverfi viðkomandi einstaklingur kemur úr. Í samskiptum reynir á sjálfstjórnina og hvernig tekið er á móti viðbrögðum þeirra sem í kring eru. Slíkt getur verið manneskju með ADHD mikil áskorun. Þetta getur verið allt frá því að vera svo erfitt að inngrips er þörf og upp í það að allt gengur vel. Í uppeldi barna er mikilvægt að geta lagt línur og framfylgja þeim, þar reynir á foreldra sem eru með ADHD.“
Fólk sem kemur til mín frá VIRK er úr öllum starfstéttum en á það flest sameiginlegt að vera uppgefið. Á jafnvel við að stríða ýmis einkenni sem lúta að kulnun.
Hvernig vinnur þú sem þjónustuaðili fyrir VIRK?
„Fólk sem kemur til mín frá VIRK er úr öllum starfstéttum en á það flest sameiginlegt að vera uppgefið. Á jafnvel við að stríða ýmis einkenni sem lúta að kulnun. Hjá hverjum einstaklingi eru auðvitað persónulegar ástæður fyrir líðaninni, bæði líkamlegar og andlegar. Oft er um að ræða einstaklinga sem ekki hafa fengið greiningu en átta sig svo á því að um er að ræða einkenni ADHD. Í starfsemi VIRK felst ekki að bjóða upp á slíkar greiningar en gjarnan er viðkomandi bent á hvert hægt er að leita til að fá til dæmis ADHD greiningu. Ráðgjafar VIRK eru margir hverjir góðir í að stuðla að slíku.
Ég hjálpa þeim sem leita til mín að vinna að hlutunum eins og þeir eru hér og nú. Ég byrja á að fræða viðkomandi um ADHD og hvað sé hægt að gera til að ná sem bestum árangri. Síðan er markþjálfunin á dagskrá og loks færniþjálfun. Hið síðastnefnda felst í að skoða hvaða leið henti viðkomandi til að muna sem best og fylgja hlutum eftir – hvort hann geti í þeirri vinnu nýtt sér netið eða aðrar leiðir. Í það heila þá vinn ég með einstaklingunum að því að markmiði að þeir ná betri árangri á vegferðinni.
Ég sinni bæði börnum og fullorðnum, fjölskyldum og námsmönnum sem eru á einhverfurófi og/eða með ADHD. Einnig held ég námskeið og fyrirlestra og er í samstarfi við endurhæfingarstofnanir. Mín vinna felst ekki síst í að hjálpa fólki að setja sér markmið og fylgja þeim eftir. Og vekja með fræðslu og færniþjálfun von um betri líðan. Margir sem til mín hafa leitað hafa sagt að frá mér taki þeir með sér von út í lífið.“
Gæti þess að vera á hlutlausu svæði
Beitir þú sömu aðferðum á alla sem til þín leita?
„Í stórum dráttum geri ég það. Ég beiti sem fyrr sagði fræðslu. Síðan ADHD-markþjálflun – stýrifærni heilans í kringum framheila. Og loks færniþjálfun. Einnig skoðum við félagsfærni hjá viðkomandi. Sumir hafa alltaf átt erfitt með félagsleg samskipti meðan aðrir eru þar í kjörlendi sínu. Við erum öll ólík að eðlisfari, sumir þrífast í margmenni meðan aðrir vilja helst draga sig í hlé. Sé um að ræða verulegan félagskvíða þá er það verkefni fyrir sálfræðing að vinna með. Ég er menntuð frá Bandaríkjunum, í náminu var lögð áhersla á nauðsyn þess að fá sálfræðiþjónustu fyrir þá sem glíma við kvíða eða aðra sálræna erfiðleika.
Mikilvægt er í svona starfi að vera meðvituð um að það er ekki mitt að breyta fólki. Virða ber hvaðan hver kemur. Ég gæti þess að vera á hlutlausu svæði, það er partur af markþjálfun. Ég hlusta hins vegar eftir því hvort um geti verið að ræða lesblindu ef viðkomandi hefur lengi átt í ströggli með nám. Og ef fólk er alltaf þreytt þá beinist athygli mín að svefninum – á viðkomandi kannski í svefnerfiðleikum – og þar fram eftir götunum.
Mikilvægt er í svona starfi að vera meðvituð um að það er ekki mitt að breyta fólki. Virða ber hvaðan hver kemur. Ég gæti þess að vera á hlutlausu svæði, það er partur af markþjálfun.
Þess má geta að mótþróa-þrjóskuröskun, vefjagift og fótaóeirð eru meðal algengra einkenna ADHD. Framheilinn er framkvæmdastjóri daglegs lífs. Eigi fólk erfitt með að skipuleggja sig þá þýðir það í raun mikla streitu sem veldur svo ýmsum einkennum sem í sumum tilvikum geta jafnvel leitt til kulnunar. Með ADHD-markþjálfun má finna leiðir til að hafa stjórn á sjálfum sér og aðstæðum og varða þannig betur vegferðina fram á við. Þetta er mikilvægt í samfélagi þar sem mikið áreiti er til staðar að jafnaði.
Til að bregðast við þeirri streitu sem þetta skapar er slökun góð aðferð, ganga úti í náttúrunni eða til dæmis að beita djúpslökun sem ég lærði og nota gjarnan. Einn ágætur geðlæknir, Dr. Ned Hallowell, líkti ADHD líðaninni við glæsilegan Ferraribíl með reiðhjólabremsur. Fólk með ADHD nær oft ekki að bremsa þegar við á til dæmis í samskiptum. Þetta er atriði sem þarf að þjálfa sig upp í kunna.“
Lyf við ADHD eiga ríkan rétt á sér
Hver er þín skoðun á lyfjum við ADHD?
„Mín skoðun nú er sú að lyf við ADHD eigi ríkan rétt á sér og að þau skipti mjög miklu máli. Lyf eru þekkt sem fyrsta meðferð við ADHD og geta haft afdrifarík og jákvæð áhrif á líðan og líf fólks. Ef fólk byrjar ungt að nota þessi lyf þá getur það jafnvel haft áhrif til góðs á þá röskun á framheila sem talið er valda ADHD. Þeir einstaklingar nái betri líðan og árangri. Lyf sem gefin eru til að hjálpa þeim sem eru með ADHD ná oft að beisla hina víðáttumiklu og hröðu hugmyndastarfsemi sem fólk nær ella ekki að fylgja eftir.
Ég var sjálf greind með ADHD 47 ára gömul. Ég tengdi ekki við greininguna fyrr en ég áttaði mig á að ég tilheyri hópi sem talað er um sem ofurskipulagða. Slíkt fólk nær að þrífast með ofurskipulagi. Þetta er varnarháttur sem maður þarf að læra að ná tökum á. Ég hef náð að hægja á mér og þekki orðið einkennin en ég þarf alltaf að hafa þetta bak við eyrað, ef svo má segja.
Ég var sjálf greind með ADHD 47 ára gömul. Ég tengdi ekki við greininguna fyrr en ég áttaði mig á að ég tilheyri hópi sem talað er um sem ofurskipulagða.
Ég starfaði sem þroskaþjálfi í átján ár í grunnskóla með einstaklingum sem voru með ADHD og sum líka á einhverfurófi. Svo kom að því að ég var „alveg búin á því“ eins og sagt er. Ég var undir miklu álagi bæði í starfi og í einkalífi og leitaði til VIRK. Meðan ég enn var í þjónustu þar tók ég ákvörðun um að læra ADHD-markþjálfun. Ég lauk námi í þeim fræðum og framhaldsnámi líka frá sérhæfðum bandarískum ADHD-markþjálfunarskóla árið 2018. Einnig hef ég lært hugræna atferlismeðferð í Endurmenntun hjá Háskóla Íslands. Núna er ég að bæta við mig námi sem varðar stýrifærni í kringum framheila og miðar að því að þjálfa fólk í átt að betri lífsgæðum.
Ég var á móti lyfjum hér áður fyrr en hef verið á lyfjum við ADHD í tvö ár. Ég hef fundið fyrir svo jákvæðum áhrifum að ég hefði ekki trúað því að óreyndu. Ég sit betur við sem þýðir að utanað komandi áreiti trufla mig ekki eins og þau gerðu áður. Andrými mitt hefur aukist og ég er betri útgáfa af sjálfri mér. – Ég get setið og dvalið betur í sjálfri mér.“